Skólaslit - 12. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 08:46

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

12. OKTÓBER

Pétur langar ekki til að deyja, hann langar ekki að verða að uppvakningi og mest af öllu langar hann alls ekki að láta bíta sig. Það er örugglega fáránlega vont.

Unnar skólastjóri er miklu þyngri en Pétur. Þar sem unglingurinn liggur á gólfinu, haldandi um líklega-brotinn-handlegginn, er ekki séns að hann geti staðið aftur upp þegar skrímslið lendir á maganum honum.

Pétur rétt nær að reisa sig við og horfir framan í sjálflýsandi augu skólastjórans.

Unnar opnar ginið upp á gátt.

Og bítur.


Pétur kreistir aftur augun.

Í eitt andartak gerist ekkert.

Pétur heldur að hann sé dauður.

Svo heyrist eitthvað furðulegt. Það ómar um kennarastofuna. Eins og einhver hafi brotið gulrót og hellt niður fullu vatnsglasi á sama tíma.

Pétur finnur peysuna sína blotna í gegn.

Hann opnar augun.

,,Hvað í...“ byrjar hann.

Æsa krýpur við hlið Péturs, enn haldandi á beittum brauðhnífnum. Hnífurinn er alblóðugur.

Pétur reisir sig örlítið við og lítur á skólastjórann. Skrímslið starir á móti, andlitið rétt við magann á honum. Nema það er eitthvað öðruvísi við fésið á karlinum en venjulega. Það tekur Pétur andartak að gera sér grein fyrir því hvað það er. Svo fattar hann það:

Það vantar neðri hlutann af andlitinu á skólastjórann.

Þegar uppvakningurinn opnaði ginið upp á gátt og beit hafði Æsa komið hlaupandi. Eins og ninja hafði hún náð að koma brauðhnífnum á milli Unnars og Péturs. Í stað þess að bíta í Pétur hafði uppvakningurinn Unnar skólastjóri bitið af fullu afli í beittan brauðhnífinn.  Krafturinn í bitinu var svo svakalegur að á einu augnabliki sneiddi skólastjórinn neðri kjálkann af sjálfum sér.

Peysa Péturs er öll út í blóði. Og tönnum.

Nú starir skrímslið á Pétur. Sjálflýsandi augun flökta. Í hálfa sekúndu hálfvorkennir Pétur Unnari. Svo tekur uppvakningurinn kipp og öskrar.

,,Eftirhverjuertuaðbíðakomdu!“ öskrar Æsa og rífur í annan handlegginn á Pétri – sem betur fer þann óbrotna. Uppvakningurinn kippist til við lætin í Æsu og stekkur umsvifalaust af stað í áttina að henni. Um leið fer þyngdin af Pétri og hann sprettur á fætur.

Unnar skríður eftir gólfinu, algerlega brjálaður og reynir að klóra í Æsu. Hún rétt nær að koma sér undan krumlunum.

,,Passaðu þig!“ gargar Pétur.

,,Ég veit!“ öskrar Æsa til baka um leið og hún grípur um skaftið á brauðhnífnum og miðar.  

 Svo kastar hún amboðinu eins fast og hún getur í áttina að uppvakningnum.

Kastið hefði ekki getað verið betra.

Hnífurinn flýgur á bólakaf í annað augað á skólastjóranum og situr þar fastur. Gulur gröftur vellur út um sárið. Unnar kastast aftur á bak og lendir á bakinu. Þar spriklar hann í allar áttir eins og óð fluga.

,,Komdu!“ gargar Æsa og hleypur út úr kennarastofunni.

Pétur eltir.

Um leið og hann er kominn fram á gang tekur Æsa í hurðarhúninn og lokar. Það síðasta sem Pétur sér af uppvakningnum er að hann er staðinn aftur á fætur. Svo skellur hurðin í lás.

Þau hlaupa.

Arndís, Joanna og Pavel standa við opinn neyðarútganginn. Arndís er komin út, Pavel sömuleiðis, Joanna stendur í hurðinni. Kalt októberloftið flæðir inn í skólann.

,,Drífum okkur!“ hvæsir Arndís og rífur í Joönnu.

,,Nei,“ hvíslar Joanna til baka. ,,Við stöndum saman. Þau eru á leiðinni. Ég finn það á mér.“ Hún lítur á litla bróður sinn og brosir til hans. Pavel er annars hugar að horfa í áttina að glugga skammt frá. Þegar hann tekur eftir því að systir hans bíður eftir svari lítur hann á hana og brosir til baka.

,,Ég líka,“ segir hann og lagar heyrnartólin sín örlítið til. Svo snýr hann sér að Arndísi og ullar á hana. Arndís fnæsir og skimar í kringum sig. Tunglið er fullt og dansar í skýjunum. Einhvers staðar í fjarska ýlfrar hundur. Þau eru stödd á leikvellinum sem umkringir skólann. Hann virðist vera algerlega uppvakningalaus. Sem er skrítið.

,,Ég treysti þessu ekki...“ tautar Arndís. ,,Það gengur engan veginn upp að þeir hafi bara allir stungið af...“ Hún virðir fyrir sér rólur, vegasölt, klifurgrindur og önnur leikföng sem öll eru bæði slímug og blóðug. Hér hefur greinilega gengið mikið á. Arndís er dauðfegin að hún gat lokað sig inni í stofu í öruggu skjóli á meðan þetta allt saman var í gangi.

,,Þarna!“ heyrist allt í einu í Pavel og hann bendir spenntur inn um opnar dyrnar. Út úr myrkrinu koma Æsa og Pétur hlaupandi. Peysan hans Péturs er alblóðug og ógeðsleg. Hann heldur um brotinn handlegginn.

,,Varstu bitinn?!“ hvíslar Joanna um leið og krakkarnir troða sér út um neyðarútganginn og út á leikvöllinn. Móður hristir Pétur höfuðið og lítur brosandi á Æsu.

,,Nei,“ stynur hann. ,,Hún bjargaði mér. Hún er hetja!“ Pétur veit að þetta hljómar ógeðslega hallærislega, en honum er alveg sama. Æsa segir ekkert en getur ekki varist brosi.

,,Hetja. Jebb. Það er ég,“ segir hún loks og roðnar. Bara pínu.

,,Jæja, getum við þá núna komið okkur?!“ spyr Arndís og stappar niður öðrum fætinum. Joanna lítur á Arndísi og dæsir.

,,Já, förum.“ Hún lokar neyðarútganginum. Það er enginn húnn hérna megin á hurðinni, þannig að ef þau vilja komast aftur inn í skóla verða þau að nota aðalinnganginn.

Sénsinn!

Arndís veður af stað og hin elta. Pétur er að drepast í handleggnum en getur ekki annað en brosað. Hann lítur á Æsu. Honum til mikillar furðu (og gleði) er hún að horfa á hann líka. Um leið og augu þeirra mætast lítur hún undan. Nú roðna þau bæði.

,,Besti dagur lífs míns,“ tautar Pétur og brosir breiðar en hann hefur brosað lengi lengi.  
 

Pavel er aftastur í hópnum. Eftir að hafa tekið nokkur skref á eftir krökkunum stoppar hann.

Svo snýr hann sér aftur að skólanum. Það tekur Joönnu andartak að fatta að bróðir hennar hefur helst úr lestinni. Hún lítur um öxl.

,,Hvaða...“ tautar hún. Pavel er að gera eitthvað furðulegt með annarri höndinni.

Joanna virðir hann betur fyrir sér.

Nei, þetta er ekkert furðulegt. Þetta er mjög eðlilegur hlutur:

Hann er að veifa.

,,Bíðið aðeins,“ hvíslar Joanna  í áttina að hópnum og skokkar til baka. Hún tekur blíðlega í öxlina á Pavel, sem umsvifalaust stingur báðum höndum í vasann.

,,Hverjum varstu að veifa?“ spyr Joanna forvitin. Pavel pírir augun eitt augnablik, eins og hann sé að velta því fyrir sér hvað hann eigi að segja.

,,Ég var bara að fíflast,“ segir hann svo. Það er lygi.

Þau læðast um leikvöllinn.

,,Hvar eru uppvakningarnir?“ hvíslar Pétur.

,,Kannski drápust þeir allir?“ spyr Joanna og skimar í kringum sig.

,,Eða átu hvern annan?“ spyr Æsa spennt.

,,Ekki hafa hátt,“ hvæsir Arndís. ,,Finnum hliðið og komum okkur héðan.“ Í kringum skólann er há girðing. Þau vita að rétt hjá anddyri skólans er hliðið inn og út úr leikvellinum. Þau setja stefnuna þangað.


Út úr myrkrinu kemur einhver gangandi.

Krakkarnir snúa öll baki í hann.

Ekkert þeirra tekur eftir honum fyrr en það er orðið of seint.

Fyrr en hann tekur í aðra öxlina á Arndísi.

Fyrr en hún byrjar að öskra.

12.hluti_Pavel-veifar.png