Skólaslit - 11. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:29

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

11.hluti_kaffistofa.png

11. OKTÓBER

Krakkarnir standa grafkyrrir.

Uppvakningurinn Unnar skólastjóri er enn í gættinni og starir á þau. Joanna og Pavel standa innarlega í kennarastofunni, skammt frá hurðinni að skrifstofu skólastjórans. Fyrir innan þær dyr má finna öryggisherbergið sem engin von er að komast inn í núna. Ekki án fingrafars skólastjórans. Arndís stendur skammt frá þeim. Æsa er í miðri kennarastofunni. Hún sér brauðhnífinn útundan sér þar sem hann liggur á gólfinu.

Pétur stendur skammt frá Æsu.

Þetta gerist allt svo hratt.

Með háu orgi stekkur skólastjórinn af stað. Dökkur sleftaumur slettist í allar áttir. Allir veina og hlaupa. Unnar skólastjóri, með útréttar hendur og sjálflýsandi augu, virðist ekki ætla að flækja þetta neitt. Hann setur stefnuna á þann nemanda sem er næstur honum; Pétur.

,,Nei, nei, nei!“ veinar Pétur og bakkar á methraða. Hann rennur í kaffibaunum sem liggja út um allt gólf og missir næstum jafnvægið, en rétt nær að grípa í stól og halda bakkinu áfram. Uppvakningurinn er ekki eins heppinn. Honum skrikar fótur í kaffibaununum, flækist fyrir sjálfum sér og fellur fram fyrir sig. Unnar skólastjóri lendir flatur eins og pönnukaka á gólfinu með háum dynk, faðmurinn galopinn. Subbuleg blanda af slími og blóði spýtist í allar áttir.

Krakkarnir stara á skrímslið þar sem það liggur á gólfinu.

Fáránleg þögn fyllir kennarastofuna.

Unnar hreyfir sig ekki.

Krakkarnir bíða ekki boðanna!

,,Út!“ veinar Arndís. ,,Neyðarútgangurinn er hérna rétt hjá!“ Svo stekkur hún af stað. Hún hleypur fram á gang. Joanna grípur fast um höndina á litla bróður sínum.

,,Komdu!“ hrópar hún og dregur Pavel á eftir sér fram á gang. Þau elta Arndísi og hverfa eitthvert út í buskann.

Pétur hefur nú bakkað eins langt og hann getur inn í kennarastofuna, þar til hann endar loks með bakið í dyrnar að skrifstofu skólastjórans. Það er ekki séns að hann ætli að koma nálægt Unnari, þótt hann sé dauður. Án þess að taka augun af uppvakningnum sem enn liggur flatur og hreyfingarlaus á gólfinu fálmar Pétur út í loftið í leit að hurðarhúni. Hann grípur í tómt.

,,Ókei, ókei, ókei...“ hvíslar Pétur, reynir að kyngir óttanum og lítur örsnöggt af gólfinu og í áttina að dyrunum sem leiða aftur fram á gang. ,,Ég elti krakkana bara, þetta verður ekkert mál, ég tek stóran hring fram hjá Unnari og...“

Pétur kemst ekki lengra.

Hann tekur skyndilega eftir því að bakið á skólastjóranum er farið að ganga upp og niður í bylgjum. Það getur ekki boðað gott.

Svo heyrir hann það:

Másið.

Unnar tekur kipp.

,,Nei, nei, nei...“ tautar Pétur. Hann mun ekki komast fram hjá dauða skrímslinu. Því skrímslið er ekkert dautt! Hann snýr sér við og skimar eins og óður niður eftir hurðinni til að finna húninn. Þarna er hann. Pétur tekur í hann.

Dyrnar að skrifstofu skólastjórans eru læstar.

,,Ertu að...“ byrjar hann en kemst ekki lengra. Uppvakningurinn orgar ofan í slímugt teppið og skellir báðum lófum flötum í gólfið. Jörðin titrar. Svo ýtir hann sér á fætur. Pétur reynir einu sinni enn að taka í hurðarhúninn, bara til að vera hundrað prósent viss áður en hann neyðir sjálfan sig til að hlaupa af stað og gvuð minn góður, dyrnar opnast!

Pétur hafði ekki tekið nógu fast í húninn í fyrra skiptið.

,,Jess!“ veinar Pétur og byrjar að bakka inn um dyrnar. Skrifstofan er ekki stór og öryggisherbergið er ekki lengur í boði en það er samt skárra en að vera fastur í herbergi með hungruðum uppvakningi.

Unnar uppvakningur er staðinn á fætur í öllu sínu veldi. Í miðri kennarastofunni gnæfir hann yfir öllu eins og blóðug blokk. Fallið hefur gert hann enn subbulegri. Það mætti halda að hver einasta æð í líkama hans hafði sprungið þegar hann lenti á gólfinu. Unnar sér Pétur. Unnar smjattar.

Pétur grípur í dyrnar og ætlar að skella í lás.

En hann frýs.

Því yfir aðra öxlina á Unnari sér Pétur glytta í manneskju sem hann steingleymdi í öllum látunum:

Æsu.

Hann hélt hún hefði hlaupið út með hinum krökkunum. Auðvitað gerði hún það ekki. Æsa hefur sótt langa brauðhnífinn og er með hann í hægri hendi, tilbúin í hvað sem er. Hún starir á handlegginn sem Unnar hefur nú þegar bitið stóran bita úr og Pétur fattar um leið hvað hún ætlar sér.

,,Nei!“ veinar hann, en hann er of seinn. Ómennskt urr kemur einhvers staðar úr iðrum skólastjórans. Á nákvæmlega sama augnablikinu stökkva bæði uppvakningurinn og Æsa af stað.

Pétur hefur alla tíð dáðst að Æsu úr fjarlægð og hrist höfuðið yfir öllu því sem hún hefur þorað að gera. Ef einhver hefði sagt honum fyrir einum degi síðan hvað hann væri um það bil að fara að gera hefði hann ekki trúað því.

,,Nei,“ hefðu Pétur sagt. ,,Ekki ég, ég myndi aldrei þora einhverju svoleiðis. Það hljómar frekar eins og eitthvað sem Æsa myndi gera.“

Um leið og Æsa stekkur af stað, vopnuð löngum, beittum brauðhníf til að sarga hálftuggna hönd skólastjórans alveg af, um leið og uppvakninga-skólastjórinn stekkur af stað með galopið ginið í áttina að Pétri, tilbúinn að háma hann í sig stekkur Pétur sjálfur af stað.

Pétur ímyndar sér að hann sé í tölvuleik. Ekkert flóknum leik, heldur meira svona einum af þessum gömlu, einföldu, eins og Mario Bros. Hann ímyndar sér að hann sé lávaxinn ítalskur pípari, mættur á svæðið til að bjarga prinsessu frá ógeðslegri dreka-skjaldböku. Þetta er ekkert flókið. Hann þarf bara að komast fram hjá uppvakningnum án þess að hann snerti sig.

Ekkert mál.

Pétur ætlar að plata uppvakninginn, láta eins og hann ætli að fara til hægri, skipta snarlega yfir til vinstri og á meðan ófétið rennur aftur á andlitið stekkur Pétur til Æsu, grípur hana með sér og saman hlaupa þau fram á gang og loka á eftir sér.

Ekkert mál.


Pétur lætur eins og hann ætli til hægri.

Uppvakningurinn eltir.

Pétur skiptir snarlega yfir til vinstri.

Og missir jafnvægið.


Í eitt andartak veit Pétur hvorki hvað snýr upp né niður.

Heimurinn snýst í hringi.

Svo lendir hann harkalega á annarri hliðinni á gólfinu.

Eitthvað smellur í handleggnum á honum og ægilegur verkur þýtur um líkamann.

Pétur grípur um handlegginn og veinar.

En ekki lengi.

Í gegnum sársaukann sér hann skólastjórann koma hlaupandi.

Uppvakningurinn hendir sér á Pétur.

Opnar ginið upp á gátt.

Og bítur.