Skólaslit - 10. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 05:57

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

10.hluti_Aesa-pusl.png

10. OKTÓBER

Æsa er vön að skemma hluti.

Stundum skemmir hún bara eitthvað smáræði, eins og til dæmis þegar hún krotar á borð í tíma eða rífur nýtt gat á úlpuna sína. Jú, og glerflöskur. Ef hún rekst á þær þegar hún er úti að vesenast er það regla hjá henni að grípa þær án þess að hugsa og grýta í burtu – eins langt og hún getur. Auðvitað hendir hún ekki viljandi í neinn, en það hefur stundum munað mjóu.

Stundum skemmir Æsa eitthvað sem er ekki smáræði. Einu sinni rispaði hún bíl pabba síns viljandi með beittum steini. Þvert eftir annarri hliðinni. Hann varð brjálaður. Svo brjálaður að í fyrsta skipti á ævinni þorði Æsa ekki að viðurkenna hvað hún hafði gert. Hún veit að pabba hennar  grunaði hana, en hún játaði aldrei. Ekki séns.

Í 4. bekk fékk Æsa æði fyrir teiknibólum og stundaði það að lauma þeim í skóna hjá ölllum þeim sem fóru í taugarnar á henni. Hún hefur ekki nákvæma tölu á því hversu margir fengu óvæntan glaðning frá henni en við skulum bara orða það þannig að það varð almennur teiknibóluskortur í öllum bókabúðum í næsta nágrenni. Það liðu nokkrar vikur áður en kennararnir föttuðu hver stóð á bak við herlegheitin. Allir urðu brjálaðir, en það var 100% þess virði að sjá alla þá sem hún þoldi ekki haltra um gangana.


Æsu hefur alltaf liðið eins og púsli sem passar ekki. Myndin sem hún á að taka þátt í að mynda er ekki sú sama og allir hinir eru hluti af. Örfáum andartökum eftir að Æsa skemmir eitthvað líður henni örlítið betur. Útlínur púslsins sem hún sér sig í verða mýkri, tilbúnar að gefa eftir og passa betur inn í heildarmyndina.

Svo líður henni aftur skringilega.

Æsa veit vel að hún á ekki að gera það sem hún gerir, en samt virðist hún ekki ráða við sig. Nei, það er ekki alveg satt. Stundum ræður hún alveg við sig, hún bara gerir það samt.

Og oftast verða allir brjálaðir. Skammast og bölvast og láta hana sitja eftir eða banna henni að fara í tölvuna í viku eða hrista höfuðið og segja setningar eins og: ,,Ég veit bara ekki hvað við eigum að gera við þig!“ eða ,,Bíddu bara þangað til pabbi þinn kemur heim!“ eða ,,Það er ekki hægt að fara með þig neitt, þú eyðileggur alltaf allt!“ Æsa er löngu orðin vön því, löngu hætt að heyra þessar setningar. Í gamla daga héldu þær fyrir henni vöku. Í dag sefur hún eins og engill.

Svona oftast.


Ástæðan fyrir því að Æsa var í aukatíma í stærðfræði hjá Unnari skólastjóra var ekki sú að hún þurfti á hjálp að halda. Hún átti í engum erfiðleikum með stærðfræði. Fannst hún ekkert mál. Skyldi hana aftur á bak og áfram.

Ástæðan var einföld; aukatímarnir hjá Unnari skólastjóra voru oftast haldnir eftir skóla.

Og ef hún var í skólanum þurfti hún ekki að vera heima.

Þannig að hún þóttist ekki skilja.

Og þess vegna var hún send í aukatíma.

Fyrstu vikur skólaársins gekk þetta plan fullkomlega upp. Svo kom babb í bátinn: Vegna skipulagsástæðna eða peninga eða einhvers annars sem fullorðna fólkið ákvað á fundi var ekki lengur hægt að hafa aukatímana utan skólatíma. Þess í stað yrðu þeir kenndir á morgnanna. Og Æsa var búin að skrá sig út árið.

Nú þurfti hún ekki bara að sitja í tímum sem hún hafði ekkert erindi í heldur þurfti hún líka að finna nýja afsökun fyrir því að hanga lengur í skólanum. Æsa var enn ekki búin að ákveða hvernig hún ætlaði að tækla þetta, en var að velta leikfélaginu fyrir sér. Þau æfðu meira að segja stundum á kvöldin.

Það væri snilld!

Unnar skólastjóri, eða það sem einu sinni var Unnar skólastjóri, stendur við dyrnar að kennarastofunni og starir á krakkana. Þau standa skelfingu lostin á v íð og dreif um herbergið. Uppvakningurinn dregur djúpt að sér andann og dökkt slef lekur milli vara hans. Enginn hreyfir sig.

Æsa horfir á Unnar þar sem hún stendur í miðri kennarastofunni og finnur hvernig kunnuglegur pirringur byrjar smám saman að heltaka hana.

Hún nennir þessu kjaftæði ekki.

Hún þurfti ekki einu sinni að vera í þessum aukatíma!

Og auk þess var búið að lofa henni öryggisherbergi!

Enn stendur gríðarstór uppvakningurinn í dyragættinni og starir. Augun verða sífellt meira sjálflýsandi með hverju augnablikinu og æðarnir í sýktu höndinni eru orðnar enn dekkri. Hin höndin á Unnari er enn nokkuð heilbrigð á að líta, en Æsa sér samt glitta í svartar æðar sem hægt en örugglega læðast niður eftir fölum handleggnum.

Útundan sér tekur Æsa eftir einhverju á gólfinu. Þegar hún laumast til að líta þangað sér hún að þetta er bara bakkelsið sem hafði verið á stóra borðinu. Vínarbrauð, nokkrir ostar, kleinuhringir, súrdeigsbrauð og...

Hjartað í Æsu tekur eitt aukaslag.

Langur brauðhnífur liggur skammt frá borðinu.

Hann er beittur.

Hún dregur djúpt að sér andann og tekur ákvörðun.

Það var búið að lofa öryggisherbergi.

Til að komast þangað inn þarf fingrafar hjá Unnari.

Það sagði enginn neitt um það að höndin á Unnari þyrfti að vera föst við líkamann á honum til að það gengi upp.