Skólaslit - 1. októberÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 06:06

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

1. OKTÓBER

Það var 31. október.

Hrekkjavaka.

Fullt tungl.

Skólinn var skreyttur hátt og lágt. Beinagrindur, gerviblóðslettur, köngulóarvefir, nefndu það. Allir veggir voru þaktir í einhverju sem vakti hroll og kitlaði ótta í hverjum einasta maga. Flest ljós voru annað hvort slökkt eða búið var að líma marglitar glærur eða kreppappír yfir þau til að skapa skuggalega stemmingu. Það var, jú, hrekkjavaka!

Í gegnum skólann lá það sem allir höfðu beðið eftir síðan 1. nóvember í fyrra:

Draugahúsið.

Unglingadeildin hafði fengið það hlutverk að búa draugahúsið til. Þau höfðu byrjað 1. október og unnið dag og nótt til að búa til flottasta draugahús sem nokkurn tímann hafði sést á Reykjanesinu. Nei, ekki bara Reykjanesinu. Landinu. Eftir því sem leið á mánuðinn var byggingin á draugahúsinu tengd öllum mögulegum og ómögulegum fögum í skólanum; textílmennt, smíðum, mannkynssögu, stærðfræði, íslensku, ensku. Það voru nefnilega ekki bara nemendurnir sem voru spenntir; nánast hver einasti kennari hafði líka metnað fyrir húsinu. Þeim fannst alveg jafn skemmtilegt og krökkunum að láta hræða sig. Í 10. bekk var hljómsveit sem tók að sér að ,,sampla saman“ (þeirra orð) hin ýmsu óhljóð sem myndu óma um draugahúsið. Útkoman var sinfónía sem var eins og hræðileg súpa af öskrum, veinum, skrímslaorgi og alls kyns urri.

Lokahöndin var lögð á draugahúsið kvöldið fyrir hrekkjavöku. Síðasti naglinn negldur. Einu aukaóhljóði bætt í hljóðmyndina. Örlitlu meiru af sírópi hellt ofan í gerviblóðið svo það myndi nú örugglega líta nógu ógeðslega út. Þegar Gríma húsvörður skellti í lás hafði hún brosað með sjálfri sér og hrist höfuðið.

,,Þetta gátu þau,“ hafði hún tautað stolt með sjálfri sér. ,,Þetta gátu þau.“


Draugahúsið byrjaði um leið og þú gekkst inn í skólann; við anddyrið. Um leið og þú hafðir hengt af þér úlpu og gengið frá skóm gekkstu í gengum sundurrifna ruslapoka sem höfðu verið festir efst í loftið. Við tóku dimm göng. Þessi göng lágu í gegnum allan skólann og í þeim bjuggu alls kyns óvættir sem tóku á móti þér; vampírur, varúlfar, uppvakningar og draugar. Unglingadeildin sá líka um þann hluta draugahússins, að klæða sig upp sem skrímsli og bregða gestum og gangandi. Það þarf varla að taka það fram að það var slegist um hverjir fengu að vera inni í draugahúsinu og hræða fólk. Nemendafélagið, með formanninn Lovísu úr 10. bekk fremsta í flokki, hafði raðað gaumgæfilega niður hverjir duttu í lukkupottinn og fengu að hræða samnemendur sína. Af einskærri tilviljun var meirihlutinn af þeim heppnu félagar Lovísu. Einhverjir úr yngri bekkjunum reyndu að mótmæla en það var ekki í boði að ræða það. Lovísa var formaðurinn, hún réði.

Draugahúsið lá frá anddyrinu, alveg upp að bókasafninu, fram hjá nokkrum kennslustofum og tröppum sem lágu niður í kjallara, fram á annan gang og endaði loks í íþróttasalnum. Þar tók við gríðarstórt völundarhús sem fyllti salinn. Allavega tveir þriðjubekkingar höfðu villst þegar þeir stálust inn í völdunarhúsið í byrjun vikunnar og Gunnar íþróttakennari, í dökkbláa jogginggallanum sínum sem hann virtist aldrei fara úr, þurfti að bjarga þeim. Allur skólinn, meira að segja kennararnir, höfðu verið spennt fyrir draugahúsinu og í morgun, klukkan nákvæmlega 08:00, höfðu nemendur á öllum aldri fyllt það.

Núna er klukkan hins vegar 20:00. Það er komið kvöld. Undir venjulegum kringumstæðum ættu allir að vera farnir heim til sín.

En það er ekkert venjulegt við þessar kringumstæður.

Inni í miðju draugahúsinu, rétt hjá bókasafninu, er stór blóðpollur á gólfinu. Þessi blóðpollur er öðruvísi á  litinn en gerviblóðið sem krakkarnir hafa eytt vikunni í að búa til úr sýrópi, matarlit og kaffi. Það er líka öðruvísi lykt af honum. Nánast eins og af klinki. Járnlykt. Ástæðan fyrir muninum er einföld: Þetta er ekki gerviblóð.

Skammt frá blóðpollinum liggur það sem eftir er af Gunnari íþróttakennara. Dökkbláar joggingbuxurnar eru enn á sínum stað. Það er efri hlutinn sem hefur verið rifinn í tætlur.

Ómennskt öskur bergmálar í fjarska. Fleiri bætast í hópinn, úr öllum hornum skólans. Þetta eru ekki óhljóð úr hljóðkerfinu, þetta er ekki eitthvað sem unglingadeildin sauð saman. 

Þetta er alvöru.

Hinum megin í skólanum er ofurvarlega tekið í hurðarhún.

Dyr eru opnaðar.

Þrjú höfuð gægjast fram á gang.

,,Hvað er eiginlega í gangi hérna?“ hvíslar titrandi rödd.
 

Kort_pink-ish_bckg.png