Skólaslit - 32. og síðasti hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 10:08

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

1. NÓVEMBER

Meistarinn er sofandi.

Í fjarska heyrir hann eitthvað.

Meistarinn rumskar.

Lætin verða hærri.

Hann teygir úr sér.

Hann veit nákvæmlega hvað þetta er.

Mamma hans er að kalla á hann.

,,Seggeh mönn!“ bergmálar röddin hennar um húsið. ,,Morgön-matör!“ Meistarinn opnar augun og kraflar út í loftið í leit að símanum sínum.

Hann finnur hann.

Klukkan er rúmlega átta.

,,Sjitt!“ veinar Meistarinn.

Hann er orðinn of seinn.

Meistarinn sprettur á fætur, flækir sig í hleðslusnúru fyrir iPad-inn sinn og flýgur næstum á höfuðið. Það var búið að vara hann við; eitt skróp enn og það yrði skoðað alvarlega að láta hann endurtaka skólaárið. Meistarinn tekur það ekki í mál.

Fyrir neðan klukkuna á símaskjánum stendur dagsetningin:

Það er 31. október. Hrekkjavaka.

Skólinn er byrjaður.

Krakkar á öllum aldri flæða inn í húsið, hálfsofandi á leiðinni í tíma. Arndís er mætt. Halldór líka. Pavel og Joanna. Æsa. Pétur. Þau eru hér og þar í skólanum, á leið í tímana sína. Þetta er bara ósköp venjulegur skóladagur, fyrir utan það að þau þurfa að stytta sér leið í gegnum draugahús til að komast inn í bygginguna.

Sem þau gera.

Nema Pavel. Hann laumast í gegnum drapperingarnar við innganginn og sleppir þessu rugli.


Draugahúsið opnaði á slaginu átta. Margra mánaða undirbúningur hafði verið settur í framkvæmdina.

Krakkarnir sem tölta í gegnum draugahúsið eru samt bara temmilega hræddir. Lovísa, formaður nemendafélagsins, stendur klædd sem vampíra við enda draugahússins algerlega brjáluð. Hún hefur eytt blóði, svita og tárum í að gera húsið sem flottast og enginn virðist vera að fíla það. Hún stormar inn á Chill-svæðið. Hún dregur djúpt að sér andann og reynir að jafna sig. Það gengur ekki.

,,Ókei, ókei, ókei,“ tautar hún og skimar í kringum sig. ,,Hvernig redda ég þessu, hvernig redda ég...“ Augu hennar stoppa á borðtölvunni. Við hana situr strákur sem virðist vera að spila leik.

Lovísa arkar að honum.

,,Frá,“ skipar hún og grípur í aðra öxlina á honum. Stráknum bregður.

,,Ha?“ spyr hann hissa.

,,Frá!“ skipar Lovísa. Strákurinn bendir á skráningarplaggið við hliðina á tölvunni.

,,Róleg! Ég á tímann sko!“ Lovísa fnæsir, skimar í kringum sig, sér blýant á tölvuborðinu, grípur hann, krassar yfir nafn stráksins (sem er Magnús) og skrifar sitt eigið.

,,Og núna á ég tímann. Frá!“ Strákurinn starir á hana og á ekki til orð.

,,En...“ byrjar hann en Lovísa stoppar hann.

,,Það eru mikilvægari hlutir í gangi en þetta drasl sem þú ert að skoða,“ segir hún og rífur í hann. Magnús stendur upp. Lovísa sest í sætið og lokar leiknum hans án þess að save-a.

,,Hey!“ mótmælir Magnús, hálfaumingjalega. Lovísu gæti ekki verið meira sama.

,,Farðu bara til Unnars og klagaðu mig. Farðu.“ Hún er byrjuð að hamra á lyklaborðið og hennar vegna gæti Magnús allt eins verið á Mars. Hann stendur tvístígandi eitt andartak við borðtölvuna og strunsar svo í burtu.

Lovísa leitar.

Hún veit að á internetinu er hægt að finna allt. Vandinn er bara að nota réttu leitarorðin. Það tekur hana um tuttugu mínútur að finna það sem hún er að leita að.

,,Þessi gerpi eru að kvarta yfir því að þetta sé svo gervilegt,“ tautar hún um leið og hún les eldgamlan spjallþráð, sem hún fann á einhverri síðu sem er löngu orðin óvirk. Hlekkur á þræðinum á að senda hana á vefsíðu, fulla af rúnum og táknum sem eiga að ýta undir ótta.

Það hljómar hryllilega vel.

,,Opna,“ tautar Lovísa um leið og hún ýtir á hlekkinn.

Ekkert gerist.

Hún ýtir aftur.

Ekkert gerist.

,,Hvaða...“ tautar hún lágt og ýtir enn einu sinni á hlekkinn. Loksins virðist eitthvað virka. Vafrinn virðist vera að leita. Spjallþráðurinn hverfur. Lovísa sest upp í sætinu sínu, tilbúin að byrja að glósa niður rúnir og tákn.

SÍÐA FINNST EKKI.

Lovísa lemur í lyklaborðið.

Skyndilega heyrir hún einhvern ræskja sig. Hún lítur um öxl.

Magnús stendur við inngang Chill-svæðisins. Unnar skólastjóri er við hliðina á honum. Hann er ekki sáttur. Lovísa setur upp sparibrosið.

,,Sko,“ byrjar hún. ,,Ég get útskýrt þetta...“ Unnar skólastjóri stoppar hana.

,,Inn á skrifstofu,“ segir hann og er eins og þrumuský í framan. ,,Núna!“

Dagurinn líður.

Á einhverjum tímapunkti kemur Arndís að Meistaranum þar sem hann er að reyna að stela tilraunaglösum inni í efnafræðistofunni. Áður en Arndís nær að klaga flýr Meistarinn með stútfullan skólatöskuna af þýfi. Á sama tíma situr Halldór í stærðfræðitíma og getur ekki beðið eftir að hann klárist.

Og talandi um stærðfræði; Joanna, Pétur og Æsa sitja hálfsofandi í aukatíma í stærðfræði hjá Unnari skólastjóra. Pavel er þarna einhvers staðar líka. Hann situr hjá Joönnu og teiknar.

Ekkert truflar tímann.

Og heldur ekki næsta tíma.

Og heldur ekki tímann eftir hann.

Að lokum klárast skóladagurinn.

Arndís arkar ákveðin niður í bæ, á leiðinni á námskeið sem hún skráði sig í utan skóla og er tæknilega séð fyrir fólk sem er byrjað í háskóla. Henni er alveg sama. Halldór mætir á fótboltaæfingu og skorar þrennu. Þjálfarinn hans er afar ánægður með hann og sannfærður um að hann eigi framtíðina fyrir sér í atvinnumennsku. Meistarinn laumast heim til sín, með skólatöskuna fulla af tilraunaglösum og byrjar umsvifalaust að reyna að selja þau á netinu, helst áður en mamma hans fattar hvað hann hefur gert. Æsa röltir annars hugar heim til sín og strunsar fram úr Pétri, sem er sömu megin á götunni og hún. Hann er í PokemonGO og tekur varla eftir henni. Hún tekur sömuleiðis varla eftir honum.

Pavel og Joanna eru samferða heim. Hann ákvað loks að skella sér í draugahúsið, rétt áður en það lokaði. Joanna bauðst til að fara með honum og varð hálfforviða þegar litli bróðir hennar afþakkaði. Á nokkrum mínútum óð hann í gegnum draugahúsið og fannst það snilld. Svo mikil snilld að hann blaðrar stanslaust um það á leiðinni heim. Og ekki nóg með það; þegar hann er kominn heim getur hann ekki hamið sig og talar um draugahúsið í örugglega tvo klukkutíma til viðbótar. Meira að segja yfir kvöldmatnum.

Lýsingarnar verða sífellt rosalegri og foreldrar þeirra skemmta sér konunglega. Joanna situr við borðið og ranghvolfir í sér augunum yfir þessu öllu saman. Henni finnst pínu hallærislegt hvað Pavel lifir sig inn í þetta. Smám saman nær Pavel samt að hrífa hana með og áður en Joanna ræður við sig er hún farin að brosa.

,,Litli lúði,“ segir hún og glottir. Pavel brosir.

,,Takk fyrir hrósið,“ skýtur hann til baka. Svo heldur hann áfram að dásama draugahúsið.

Það er komin nótt.

Tunglið er fullt.

Um allt Reykjanesið liggja krakkar og sofa. Einhverja dreymir. Þá dreymir skugga sem hlaupa, hendur sem rífa og munna sem bíta. Einn og einn vaknar en sofnar jafharðan aftur. Aðrir sofa rólegir í gegnum nóttina.

Þetta eru samt ekki draumar.

Þetta eru minningar.

Minningar um eitthvað sem gerðist.

Pétur hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að það besta við að teikna eitthvað væri að maður gæti strokað það út og byrjað upp á nýtt.

Það var nákvæmlega það sem krökkunum tókst að gera. Þegar draugahúsið brann eyddu þau táknunum og rufu þessa hræðilegu bölvun sem fylgdi þeim.

Allt hafði byrjað upp á nýtt.

Allt var eins, nema táknin og rúnirnar voru ekki lengur á sama stað og áður. Þau höfðu forðað sér. Særð og aum. Þau þurfa að safna kröftum. Sleikja sár sín.

Táknin og rúnirnar eru samt enn til.

Einhvers staðar.

Þau hafa fundið sér nýjan felustað.

Og einhvern daginn þegar þau eru nógu sterk á einhver grunlaus eftir að ramba á þau og nota. Aðrar dyr munu opnast og veran í myrkrinu mun brjótast út.

En það verður ekki í nótt.

Og það verður ekki hér.

Í nótt ríkir friður.

Tunglið dansar í skýjunum.

Börn og unglingar sofa.

Október kveður – og nóvember tekur við.

ENDIR

 

Ævar Þór, 29. september – 31. október 2021

32.hluti_endir_white2.png